Veiðiheimildir á svæði D hækka um 200 tonn
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerð um strandveiðar fiskveiðiárið 2016/2017. Reglugerðin mun birtast í Stjórnartíðindum síðar í dag.
Aukning verður á veiðiheimildum á svæði D um 200 tonn frá fyrra ári, og heildaraflaheimildir hækkaðar úr 9.000 tonnum í 9.200 tonn. Strandveiðitímabilið hefst 2. maí og stendur til 31. ágúst 2017. Önnur ákvæði um veiðisvæði, veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla verða óbreytt frá fyrri árum.
Við úthlutun aflaheimilda er byggt á svæðaskiptingu; svæði A) nær frá A. Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B) nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, svæði C) nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar.
Strandveiðar hófust fyrst í júní 2009 og var heildarmagnið þá 4.000 tonn. Á komandi vertíð verður leyfilegur heildarafli 9.200 tonn og er það aukning um 200 tonn frá fyrra ári. Reikna má með að útgefin veiðileyfi verði um 700.
Botnfiskur | Maí | Júní | Júlí | Ágúst | |
Svæði A | 852 | 1.023 | 1.023 | 512 | |
Svæði B | 521 | 626 | 626 | 313 | |
Svæði C | 551 | 661 | 661 | 331 | |
Svæði D | 600 | 525 | 225 | 150 |