Árangursríkt grálúðuúthald
Kap II VE-7 er komin til heimahafnar í Eyjum eftir að hafa stundað grálúðuveiðar við austurströndina frá því í byrjun júlí. Veiðarnar gengu vel og aflinn var alls 660 tonn.
„Kap II landaði á Eskifirði og sótti alla þjónustu þangað og til Reyðarfjarðar. Samstarf við alla aðila þar var mjög gott og verðskulda Austfirðingar bæði hrós og þakkir af því tilefni.
Eftir árangursríkt grálúðuúthald á Kap II flytja Kristgeir A. Ólafsson skipstjóri og menn hans sig yfir á Glófaxa VE. Vinnslustöðin keypti sem kunnugt er Útgerðarfélagið Glófaxa ehf. sem hefur gert út Glófaxa VE um áratuga skeið. Skipið heitir nú Sleipnir VE-83 og mun Vinnslustöðin gera það út undir því nafni. Sleipnir VE veiðir á næstu mánuðum þorsk, ufsa og skötusel í net,“ segir á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Glófaxi VE – nú Sleipnir VE. Mynd: Tryggvi Sigurðsson