Skemmtilegast þegar fiskast vel
Maður vikunnar í dag er á netabátnum Maron GK. Hann er innfæddur Grindvíkingur og byrjaði snemma að vinna í fiski. Hann heldur með „stærsta og sigursælasta knattspyrnufélagi Englands Manchester United.“
Nafn:
Sigurður Þór Birgisson.
Hvaðan ertu?
Fæddur og uppalinn í Grindavík.
Fjölskylduhagir?
Vel giftur henni Kristínu Guðmundsdóttur Hammer og eigum við 3 börn Birgi 6 ára Dagbjörtu Maríu 4 ára, Hrafnkel Daða 3 ára og hundinn Jack 10 ára.
Hvar starfar þú núna?
Er á Maron GK 522
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Það hefur verið 89 eða 90 hjá Óla frænda og Helgu og þar var ÞRIKKURINN verkstjóri sem enn þann dag í dag er held ég næst besti Cribbage spilari á landinu.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Það er skemmtilegast þegar fiskast vel og svo eru það líka forréttindi að vera umkringdur svona eðalmönnum eins og áhöfnin á Maron er.
En það erfiðasta?
Erfiðast var að vera ekki til staðar þegar Dagbjört fæddist.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Man nú ekki eftir neinu skrýtnu í fljótu bragði.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Verð að nefna landsliðsfélagana; Flóameistarann Birgi, Val Ólafs, Rúrik Hreins, Jón Magnús og Ellert Vopna.
Hver eru áhugamál þín?
Fjölskyldan, golf og fótbolti og að fara á leiki hjá stærsta og sigursælasta knattspyrnufélagi Englands MANCHESTER UNITED.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Nautalund með bernaise klikkar ekki.
Hvert færir þú í draumfríið?
Var að koma úr því með fjölskyldunni á Tene, færi því aftur þangað.