Kynnir rannsóknir á hafstraumum
Á málstofu Hafrannsóknastofnunar fimmtudaginn 28. mars mun M. Dolores Pérez-Hernández (Lola), haffræðingur á umhverfissviði stofnunarinnar, kynna niðurstöður rannsókna á straumakerfi í hafinu við Svalbarða og í Norður-Íshafinu.
Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og hefst kl. 12:30 og er öllum opin. Málstofunni verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar. Athugið að erindið verður flutt á ensku.
Hluti hlýsjávar Atlantshafs streymir í norður framhjá Íslandi og Svalbarða og inn í Norður-Íshafið, þar sem straumurinn sveigir til austurs og liggur meðfram landgrunni Evrópu og Rússlands. Í erindinu er fjallað um helstu eiginleika þessa straums og árstíðabundin breytileika út frá gögnum sem safnað var árin 2012 og 2013.
Rannsóknin var hluti af stærra verkefni sem ber heitið A-TWAIn (The Atlantic Water Boundary Current in the Eastern Arctic: Composition, Transport, Variability, and Dynamics). Lola vann að verkefninu árin 2015 til 2018 er hún starfaði sem vísindamaður við Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum.
Þrjár vísindagreinar hafa verið birtar um verkefnið og má nálgast þær hér:
- The Atlantic Water boundary current north of Svalbard in late summer (2017)
- Variability and redistribution of heat in the Atlantic Water boundary current north of Svalbard (2018)
- Structure, transport and seasonality of the Atlantic Water Boundary Current north of Svalbard: Results from a year-long mooring array (2019)