Pönnusteiktur þorskur með hvítlaukssmjöri
Nú fáum við okkur þorsk. Þennan glæsilega fisk sem haldið hefur lífinu í okkur Íslendingum öldum saman. Við erum önnur öflugasta þorskveiðiþjóð heimsins á eftir Norðmönnum, en á undan Rússum. Fjórði hver þorskur sem fer á markaði um allan heim er af íslenskum uppruna. Daglega eru hér framleiddar hundruð þúsunda máltíða úr þorski og fara nær allar á matardiska erlendra neytenda. En við skulum njóta þessa góða fisks líka.
Innihald:
Hvítlaukssmjör:
300g smjör við stofuhita
2 msk graslaukur, smátt saxaður
3 hvítlauksrif, marin
smávegis salt.
Þorskurinn:
Fjórir bitar úr þorskhnakka, um 200g
salt og nýmalaður svartur pipar
2 msk ólífuolía
Aðferð:
Byrjum á hvítlaukssmjörinu. Hrærið smjörið með þeytara í skál uns það er orðið létt og froðukennt. Bætið hvítlauk og graslauk útí og blandið vel saman. Breiðið plastfilmu á bretti og setjið smjörblönduna á hana og rúllið upp í um það bil þriggja sentímetra þykka rúllu. Lokið vandlega og frystið í um 20 mínútur. Smjörið geymist vel í frysti í að minnsta kosti mánuð. Þegar komið er að því að nota smjörið eru skornar hæfilegar sneiðar af rúllunni.
Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu í heitri olíu í 5-7 mínútur á hvorri hlið, uns fiskurinn er orðinn gullinn og gegneldaður. Berið fiskinn fram með þykkum sneiðum af hvítlaukssmjörinu, fersku salati og nýjum kartöflum eða soðnum hrísgrjónum.