Lítill afli á strandveiðum í síðustu viku
Strandveiðar gengu illa á flestum svæðum í síðustu viku. Aflinn nú er um 160 tonnum minni en í sömu viku á síðasta ári. Aflinn nú er 608 tonn, en var 767 tonn í fyrra.
Það er aðeins á svæði D, fyrir Suðurlandi, sem aflinn hefur aukist milli þessara tveggja vikna. Hann er nú 112 tonn á móti 101 tonni í fyrra. Bátarnir þar eru heldur fleiri en í fyrra og landanir sömuleiðis.
Aflinn á svæði A, frá Snæfellsnesi og norður fyrir Bolungarvík, varð nú 296 tonn, en var 356 tonn á sama tíma í fyrra. Þar eru bátarnir flestir, 223 með löndun, en engu að síður hefur löndunum fækkað, væntanlega vegna slæmra gæfta. Afli á róður hefur einnig dregist saman.
Á svæði B, fyrir Norðurlandi, varð 138 tonn nú en var 166 tonn á sama tíma í fyrra. Bátar með löndun þar eru 119, en landanir aðeins 211.
Á svæði C, fyrir Austurlandi varð aflinn nú aðeins 62 tonn í 93 löndunum. Aflinn á sama tíma í fyrra var 144 tonn í 216 löndunum. Bátafjöldi er nánast sá sami og í fyrra, 101 bátur alls með löndun.