Hægt gengur að selja makríl frá Færeyjum

36
Deila:

Frystigeymslur færeyska fyrirtækisins Pelagos fyrir frystan uppsjávarfisk eru nú nánast fullar. Þar er mest um að ræða makríl og síld. Þetta er verulega frábrugðin staða miðað við árstíma þegar mest af þessum tegundum eru fluttar utan. Skýringin er Covid-19

Nú eru birgðir að verðmæti ríflega 3 milljarðar íslenskra króna, að mestu leyti makríll. Venjulega streyma afurðirnar utan á þessum tíma árs og í ágúst, þegar makrílvertíðin hefst á ný, eru geymslurnar tómar.
Um helmingur makrílafurða frá Færeyjum fer venjulega til Rússlands en nú hefur eftirspurnin þaðan fallið. Sömu sögu er að segja af mörkuðum í Afríku og Austurlöndum fjær. Þá eru margar hafnir lokaðar og mikil óvissa um framhaldið. Betur gengur hins vegar að selja til Hvíta Rússlands, Úkraínu, Póllands og Frakklands.

Jóhan Páll Joensen framkvæmdastjóri Pelagos telur að salan í apríl verði aðeins fjórðungur þess sem verið hefur undanfarin ár. Þeir geri sér þó vonir um að það takist að selja alla framleiðsluna, þegar eftirspurn eykst á ný, spurningin sé bara um verðið.

Hluti af starfsfólki Pelagos hefur farið á atvinnuleysisbætur, því til viðbótar við sölutregðu er erfitt að fá efni, tæki og tól til viðhaldsvinnu flutt til Færeyja. Í fyrra voru ársverk 55 hjá félaginu, en nú eru aðallega stjórnendur og sölumenn sem séu að vinna heiman frá sér til að koma í veg fyrir smithættu af Covid-19.

Svipaða sögu er að segja að Varðin Pelagic. Þar eru miklar birgðir enn óseldar.

.

 

Deila: