Ungir frændur úr Grímsey kaupa strandveiðibáta

Tveir ungir frændur í Grímsey hafa fest kaup hvor á sínum strandveiðibátnum. Þeir Bjarni Reykjalín Magnússon og Ingólfur Bjarni Svafarsson, 23 og 24 ára, eru báðir fæddir í Grímsey og ólust upp þar. Þeir stefna á að gera út frá og landa í Grímsey samkvæmt frétt á ruv.is.
Bilaði í fyrstu siglingu
Bjarni sigldi bátnum heim til Grímseyjar í vikubyrjun en bátinn keypti hann á Skagaströnd. „Það var skrautleg ferð,“ segir Bjarni. Ferðalagið sé einhverjar 70-80 sjómílur og hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig enda þurfti að draga hann síðustu 18 mílurnar þar sem báturinn bilaði. Hann sé því að gera við bátinn núna og ekki enn búinn að komast að því hversu alvarleg bilunin er.
Alltaf meira fyrir bílana
Hann segir það í raun hafa verið skyndiákvörðun að kaupa bát enda hafi hann alltaf verið meira í bíladellunni. Hann hefur að eigin sögn lítið verið á sjó, aðeins með pabba sínum sem átti svipaðan bát, þegar hann var krakki, en draumurinn hafi samt alltaf blundað í honum.
Foreldrar Bjarna eru með verktakafyrirtæki í Grímsey, sjá meðal annars um löndun og afgreiðslu á ferjunni. Hann hefur því unnið hjá þeim við hitt og þetta í áranna rás. Fyrir nokkrum árum lenti hann í vinnuslysi. Hann var í endurhæfingu á Reykjalundi í fyrra og er því nýlega kominn aftur út á vinnumarkaðinn. „Það er því stórt stökk að fara út í þetta,“ segir Bjarni. Hann hafi hins vegar orðið svo öfundsjúkur þegar Ingólfur frændi hans kom heim með bátinn sinn í síðustu viku að hann hafi stokkið til og keypt sér bát líka.
Ekki lengi að segja upp og flytja heim
Ingólfur er úr útgerðarfjölskyldu og segir sjómennsku alltaf hafa legið fyrir. Hann er búinn með tvo vetur í stýrimannaskólanum og stefnir á að fara suður í haust og klára námið. Bátinn keypti hann með föður sínum sem kom með hugmyndina í lok síðasta árs.
„Ég var að vinna fyrir sunnan á skipi og var ekki lengi að hlaupa og segja upp og flytja heim,“ segir Ingólfur. Þetta hafi þó sennilega ekki verið gáfulegasti tímann til að kaupa strandveiðibát en hann vonar að staðan á mörkuðum fari að lagast. Það verði allavega strandveiðar í sumar. „Svo vonum við það besta og sjáum til um framhaldið,“ segir hann.
Tveir menn geta ekki breytt öllu
Mikið hefur verið rætt um framtíð Grímseyjar síðastu ár vegna mikillar fólksfækkunar og því jafnvel verið haldið fram að byggð leggist af. Bjarni segir það vissulega breytingu fyrir eyjuna að fá tvo nýja báta en tveir menn geti ekki breytt öllu.
Eyjarskeggjar séu þó hæstánægðir með þessa þróun og þeim hafi báðum verið tekið eins og konungum við höfnina. Þeir vonist til þess að það verði uppgangur í Grímsey í framhaldinu og að þetta geti verið hvatning fyrir aðra að drífa sig af stað. Þeir eru sammála um að í Grímsey sé best að vera.
Eyjarskeggjar rólegir yfir COVID-19
Það hefur fjölgað í Grímsey síðan heimsfaraldur skall á en Bjarni segir marga hafa komið heim til Grímseyjar þegar skólar og vinnustaðir lokuðu. Fólk sæki þangað í ró og næði, eins og fólk fari í sveitina. „Menn eru rosalega rólegir yfir COVID í Grímsey. Það eina sem við finnum fyrir er að það eru ekki ferðamenn hjá okkur,“ segir Bjarni.