Áhöfnin á þakinu

Hún er samhent áhöfnin sem er undir stjórn Sigurðar Jónssonar skipstjóra á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni í Grindavík. Hún tók sig til í gær og skipti um járn á þakinu á húsinu og bílskúrnum hjá Einari Hannesi Harðarsyni, háseta. Og hún var ekki lengi að því. Dagurinn dugði, enda vanir menn að verki.
„Við hjálpumst að. Það hefur alltaf verið þannig að áhöfnin er mjög samstíga og kemur til hjálpar hver fyrir annan, þegar mikil verkefni eru fyrir hendi hjá einhverjum okkar. Við höfum áður tekið þak fyrir einn úr áhöfninni og hjálpað til við að setja gifsplötur upp í loft hjá öðrum. Við hjálpumst að þegar vantar fleiri hendur. Þetta er sterkur hópur og samhentur,“ segir Sigurður Jónsson, skipstjóri.