Nýtt hús Hafró vígt í dag

34
Deila:

Nýtt hús Hafrannsóknastofnunar, sem jafnframt er stærsta timburhús landsins, verður vígt kl. 16:00 í dag, föstudaginn 5. júní. Nýju höfuðstöðvarnar eru að Fornubúðum 5, við höfnina í Hafnarfirði. Klukkan 13:30 sama dag mun starfsfólk Hafrannsóknastofnunar fylkja liði og ganga saman frá Sjávarútvegshúsinu á Skúlagötu og um borð í rannsóknarskipin Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson sem liggja við Faxagarð við Hörpu og sigla með þeim út Faxaflóann og yfir í sína nýju heimahöfn.

Með í för verður forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson. Þá munu björgunarskip Landsbjargar fylgja rannsóknarskipunum í vígslusiglinguna og þetta verður því í raun lítil skipalest (alls 5 bátar) sem fer í þessa hátíðarsiglingu.

Skipin leggjast að bryggju við Háabakka, nýjan hafnargarð í Hafnarfjarðarhöfn, um kl. 16. Mun forsetinn þá klippa á borða neðst á landganginum við hafnargarðinn og með því vígja nýju höfuðstöðvarnar formlega.

Því næst mun forsetinn og starfsfólk Hafró ganga að nýju höfuðstöðvunum, þar sem forsetinn mun segja nokkur orð að viðstöddum þingmönnum, ráðherrum, sveitarstjórnarfólki og öðrum sem tengjast starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Á sjómannadaginn 7. júní milli kl. 13 og 17 býður Hafrannsóknastofnun öllum að skoða húsið. Stutt kynning verður á starfseminni og veitingar í boði.

Starf­semi Haf­rann­sókna­stofn­un­ar á höfuðborg­ar­svæðinu er nú loks komin á einn stað en áður voru höfuðstöðvar stofn­un­ar­inn­ar í Sjávarútvegshúsinu að Skúla­götu 4, þar sem tæplega 2/3 starfsmanna höfðu aðsetur, en geymsl­ur og skemm­ur við Grandag­arð.

Rann­sókna­skip stofn­un­ar­inn­ar nú fá lægi við nýj­an hafn­argarð, Háabakka, í Hafn­ar­fjarðar­höfn.

Stefna Hafró var að vera eins umhverfisvæn stofnun og mögulega er hægt og því var ákveðið að byggja húsið úr timbri.

Notast er við svokallaðar krosslímdar tréeiningar sem eru fluttar inn frá Austurríki. Þá er möl notuð á hverri hæð sem hljóðeinangrun en jafnframt til að þyngja húsið.

Húsið er 4.100 fermetrar að stærð og fimm hæða.

Mötuneyti og fundarsalir verða á neðstu hæðinni og önnur hæðin fer mest undir rannsóknarstofur. Þá verður í húsnæðinu sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna og þrjár efstu hæðirnar fara að mestu undir skrifstofur. Þá verður geymsla, verkstæði og útgerðaraðstaða í um 1.440 m² eldri byggingu.

Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin í mars 2018.

Fasteignafélagið Fornubúðir ehf. byggði húsið

 

Deila: