Styttist í strandveiðunum

Það styttist í að veiðiheimildir í strandveiði verði fullnýttar. Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir mikilvægt að auka við heimildirnar, annars geti hundruð strandveiðimanna orðið atvinnulaus í næstu viku. Strandveiði hefur gengið vel í sumar, það vel að ef fer sem horfir munu veiðiheimildir klárast og veiðar þar með stöðvast á miðvikudag í næstu viku samkvæmt frétt á ruv.is.
Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir mikilvægt að sjávarútvegsráðherra auki við heimildirnar og tryggi veiðar út ágúst. Kerfið byggi á því að það séu 12 dagar til veiða í mánuði og veiðileyfi gefin þannig út. „Allt lagaumhverfi er þannig að það byggist á því þar sem að ef að veiðarnar stöðvast í næstu viku þá missa allir þessir bátar veiðileyfi og geta ekki farið í neinar aðrar veiðar,“ segir Örn.
Segir nægar heimildir til í kerfinu
Hann segir nægar þorskveiðiheimildir til í kerfinu sem séu ónýttar á veiðiárinu og er bjartsýnn á að ráðherra bregðist við. „Við bentum á það í upphafi veiðanna að það yrði meiri þátttaka á þessu ári og þess vegna þyrfti að fá meiri afla inn í kerfið. Það hefur gengið brösuglega,“ segir Örn.
Í upphafi tímabilsins hafi þorskveiðiheimildir verið þúsund tonnum lægri en í fyrra. Það hafi ekki verið leiðrétt, verði það gert núna ætti það að tryggja veiðar út mánuðinn. Þá hafi veiðiheimildir síðasta árs ekki verið fullnýttar, þær hafi hins vegar ekki verið færðar yfir á þetta ár þó sá möguleiki sé fyrir hendi.
Þetta velti því eingöngu á ákvörðun ráðherrans og óvissan sé óásættanleg. „Ef að veiðarnar verða stöðvaðar í næstu viku þá verða hundruð strandveiðimanna án atvinnu, algjörlega og ef það er ekki hægt að taka aðeins á í nýtingu auðlindarinnar á svona tímum þá er illa komið fyrir okkur“.
720 tonnum bætt við aflaheimildirnar í júlí
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, bætti 720 tonnum við heimildirnar í lok júlí og kom þá fram að ráðherra hefði að lögum engar frekari heimildir til að auka við aflaheimildir til strandveiða á þessu fiskveiðiári. Ekki náðist í Kristján Þór við vinnslu fréttarinnar.