Niðurstöður ofar væntingum

„Ég er nokkuð ánægður með niðurstöður annars ársfjórðungs sem eru ofar væntingum sem stjórnendur höfðu í upphafi fjórðungsins, sérstaklega ef litið er til stöðunnar vegna COVID-19. Bættan árangur má meðal annars sjá í aðlagaðri EBITDU fjórðungsins sem jókst um 7,6% milli ára. Ég er mjög stoltur og þakklátur fyrir hversu mikið okkar frábæra starfsfólk hefur lagt sig fram á þessum krefjandi tímum. Þeirra framlag hefur verið lykillinn að því að tryggja góða þjónustu til viðskiptavina og því að halda flutningakeðjunni gangandi.“
Þetta segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips um afkomu félagsins á öðrum fjórðungi þessa árs. Hann segir ennfremur:

„Við erum farin að sjá jákvæð áhrif hagræðingaraðgerða síðustu sex til tólf mánaða þar sem við höfum t.d. fækkað stöðugildum um 10% frá árslokum 2019, aðlagað gáma- og frystiflutningakerfin okkar og fækkað skrifstofum. Það hefur reynst mikilvægur þáttur til að vega á móti neikvæðri þróun í flutningsmagni og áhrifum COVID-19 og við erum ákveðin í að tryggja að þessar rekstrarumbætur haldist til framtíðar.
Alþjóðasviðið okkar átti sterkan fjórðung, sérstaklega í frystiflutningsmiðlun sem við leggjum sérstaka áherslu á og skilar hærri framlegð en þurrvara. Innanlands starfsemin okkar átti einnig sterkan fjórðung þar sem hagstæð samsetning á vörum í akstri og agaður rekstur skiluðu sínu. Arðsemi af gámasiglingakerfinu okkar þarf hins vegar að bæta og við munum halda áfram að leggja mikla áherslu á það verkefni á komandi mánuðum. Að auki má nefna að meðan áhrifa COVID-19 gætir á ferðaþjónustutengda starfsemi mun það hafa áhrif á dótturfélög okkar Sæferðir og Gáru.
Það var frábær áfangi þegar Eimskip fékk nýja gámaskipið Dettifoss í þjónustu sína nú í júlí og við hófum formlega samsiglingar með Royal Arctic Line en þetta er í fyrsta sinn sem Eimskip hefur slíkar samsiglingar með þessum hætti. Mig langar sérstaklega að þakka áhöfninni á Dettifossi og starfsmönnum á Rekstrarsviði Eimskips fyrir að ferðast til Kína á krefjandi tímum vegna COVID-19 og tryggja örugga heimkomu nýja skipsins. Grænland fær nú aukinn aðgang að alþjóða mörkuðum í gegnum siglingakerfi Eimskips. Við sjáum aukinn áhuga frá íslenskum fyrirtækjum á útflutningi til Grænlands og eigum við von á að viðskipti milli landanna tveggja aukist. Við áætlum að fá seinna skipið okkar, Brúarfoss, afhent á fyrri hluta fjórða ársfjórðungs og í þjónustu síðar í þeim fjórðungi.
Í júní sameinuðum við höfuðstöðvar félagsins á einn stað og tókum um leið í notkun nútímalegt og dýnamískt verkefnamiðað vinnuumhverfi. Á sama tíma fækkuðum við skrifstofufermetrum um 50% eða 3200m2. Breytingunum hefur verið vel tekið af starfsmönnum og ég er ánægður að sjá hversu jákvæð áhrif þær hafa nú þegar haft á fyrirtækjamenninguna okkar.“
Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Eimskips á slóðinni;
https://www.eimskip.is/um-eimskip/frettasafn/frettir/uppgjor-annars-arsfjordungs-2020/