Mikið tekjufall vegna fráhvarfs skemmtiferðaskipa

Tekjur Faxaflóahafna árið 2019 af farþegaskipum voru í kringum 597.000.000 m. kr. en á þeim tíma gerði það í kringum 14% af heildartekjum fyrirtækisins. Hins vegar voru tekjur Faxaflóahafna í ár fyrir farþegaskip í kringum 11.200.000 m. kr., er því um heilmikið tekjutap að ræða milli ára þegar kemur að farþegaskipum samkvæmt frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.
Í byrjun árs 2020 voru áætlaðar 187 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna með 203.214 farþega. Miðað við þessar tölur átti að vera 8% aukning í farþegafjölda en 2% fækkun í skipakomum milli ára. COVID-19 heimsfaraldurinn náði hámarki hér á landi í kringum 22. mars 2020 eftir að hafa risið hratt frá því hans varð vart í lok febrúar. Það var ekki fyrr en eftir 5. apríl sem dró skyndilega úr fjölda daglegra smita hérlendis. Reglur voru settar og öllum sem koma til landsins gert að fara í sóttkví í 14 daga frá komu, til að gæta almannaheilla og hafa hemil á farsóttinni hér á landi. Í kringum apríl/maí fer að bera á því að skipafélög byrja að afboða komu sína fyrir sumarið til Íslands. Á þessum tímapunkti, taka flest skipafélögin þá ákvörðun að stöðva heimssiglingar þar sem faraldurinn er í mikilli uppsveiflu á mörgum stöðum í heiminum. Ljóst var á þessum tímapunkti að flestar skipakomur sem búið var að bóka hjá Faxaflóahöfnum þetta sumarið myndu afbókast.
Alls voru 7 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna þetta árið með 1.346 farþega. Fyrsta skip ársins, Magellan, kom 9. mars og hafði sólahrings viðdvöl í höfuðborginni. Skipið var gert út af Cruise & Maritime Voyages en því miður fór það skipafélag á hausinn í sumar. Cruise & Maritime Voyages gerði út skipin: Astor, Astoria, Marco Polo og Magellan, allt skip sem hingað komu til lands. Skipafélagið áætlaði í kringum 100 skipakomur hingað til lands þetta árið á hinar ýmsu hafnir. Það var síðan skipafélagið Ponant sem ákveður í júlí að hefja siglingar til Íslands. Fram að þeim tíma þá hafði ekkert farþegaskip komið til Faxaflóahafna frá því í mars. Skipið sem kom heitir Le Bellot. Um er að ræða leiðangursskip sem getur tekið í kringum 200 farþega. Hins vegar var skipið aldrei fullbókað þessar 6 skipakomur sem það kom til Reykjavíkur. Allir farþegar komu með leiguflugvél frá París til Keflavíkur og fóru í skimun á Keflavíkurflugvelli. Farþegar voru síðan fluttir ca. 10-15 í hverri rútu niður á Miðbakka. Farþegar þurftu að passa sjálfir uppá fjarlægðartakmörk og bera andlitsgrímur. Þegar neikvæð niðurstaða var komin, þá fyrst mátti fólk fara um borð í skipið og sýna þurfti SMS því til staðfestingar. Engin smit komu frá skipunum til landsins enda vel gætt að sóttvörnum.
Frekari upplýsingar má nálgast á slóðinni https://www.faxafloahafnir.is/is/forsidu-frettir/farthegatolur-2020/