Áhöfnin slökkti eld um borð í Indriða Kristins

15
Deila:

Eldur kom upp í 30 tonna línubáti frá Tálknafirði á öðrum tímanum í dag. Áhöfnin slapp ómeidd og vel gekk að slökkva eldinn. Eigandinn segir í samtali við ruv.is að sér hafi liðið bölvanlega við að heyra fréttirnar.

Eldur kom upp í vélarrými fiskiskipsins Indriða Kristins BA, sem er í eigu Þórsbergs ehf. á Tálknafirði, rúmlega eitt í dag. Guðjón Indriðason, eigandi Þórsbergs, segir að sér hafi liðið bölvanlega þegar hann fékk fréttirnar en áhöfnin sé öll heil á húfi og það sé fyrir öllu. Fjórir eru í áhöfn skipsins.

Þeir hafi lokað niður í vélarrúm þegar eldurinn kom upp og það sé sjálfvirkur slökkvibúnaður sem fari í gang. Eldurinn hafi því dáið út og honum skilst að þeir hafi ekkert opnað aftur þangað niður ef ske kynni að eldurinn myndi blossa upp aftur.

Indriði Kristins BA er 13 metra langur og 30 tonn. Hann er gerður út frá Tálknafirði en hefur landað á Siglufirði undanfarna daga. Guðjón segir þá hafa farið út í fyrrakvöld og verið búnir að leggja tvær línur. Þeir hafi verið hálfnaðir að draga seinni lögnina þegar eldurinn kom upp. Hann segir verið að draga bátinn að landi núna og það geti tekið um fimm klukkutíma.

 

Deila: