Ágætur afli þegar veður leyfir

13
Deila:

„Þetta kroppast hjá okkur. Vandinn er að það er búið að vera kolvitlaust veður allan þennan túr. Það dúrar inn á milli og þá höfum við fengið ágætan afla.”

Þetta segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE í samtali við heimasíðu Brims, en Árni og hans menn voru búnir að vera tíu daga í túrnum er rætt var við hann.
,,Við erum aðallega að reyna að veiða karfa og ufsa. Við byrjuðum á djúpkarfaslóð í Skerjadjúpi en þar var lítið að hafa auk þess sem það brældi hressilega. Við fluttum okkur því á Reykjanesgrunnið en þar var sama brælan. Því hrökkluðumst við undan veðri norður á Jökultungu og Jökulbanka, með viðkomu á Fjöllunum, og erum nú á hinni svokölluðu Flugbraut. Hér er bara gullkarfi og mér sýnist spáin eitthvað fram í næstu viku gefa tilefni að reyna meira við ufsa á SV-miðum,” segir Árni.
Að sögn Árna er aflinn nú kominn í um 270 tonn upp úr sjó og hann segir að svo geti farið að millilöndun verði einhvern tíman í næstu viku. Framvinda veiða ræður þar miklu.
,,Mér sýnist að það versta sé yfirstaðið í bili og það verði veiðiveður alveg fram á þriðjudagskvöld. Það verður tilbreyting eftir tíu daga stanslausa brælu,” segir Árni Gunnólfsson.

Deila: