Aukin umsvif og dýpkun hafnarinnar á Þórshöfn

29
Deila:

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við höfnina á Þórshöfn undanfarnar vikur. Verið er að byggja við fiskvinnslu Ísfélagsins og dýpka höfnina. Aukin umsvif eru við uppsjávarvinnslu á Þórshöfn og erfiðleikum háð að sigla stærstu veiðiskipum þar í höfn. Frá þessu er greint á ruv.is

Það er jafnan mikið um að vera á hafnarsvæðinu á Þórshöfn. Flutningaskip sótti nýlega síðustu afurðirnar frá nýlokinni síldarvertíð, 1500 tonn af frosinni síld. Í byrjun júlí hófst vinnsla á makríl á Þórshöfn og síldarvertíð tók við í september. Henni lauk 24. október.

500 metra viðbygging við fiskiðjuver Ísfélagsins

Vegna aukinnar uppsjávarvinnslu í fiskiðjuveri Ísfélagsins er nú verið að reisa 500 fermetra viðbyggingu í átt að bryggjukantinum. „Það er orðið mjög þröngt inni í húsinu hjá okkur. Við erum búin að vera að stækka og efla uppsjávarvinnsluna undanfarið og það hefur þrengt mjög mikið að bolfiskinum og ýmsum öðrum þáttum í frystihúsinu,“ segir Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu á Þórshöfn. Við þetta verður meðal annars hægt að stækka kæli og skapa aukið rými fyrir bolfisk og koma fyrir ýmiss konar búnaði.

Stærstu skip þurfa að sæta lagi til að komast inn

Þegar umsvifin á hafnarbakkanum aukast og skipin stækka, þá þarf að dýpka innsiglinguna. Dýpkunarskip hefur verið á Þórshöfn síðustu vikur og frá því í ágúst hefur um tíu þúsund rúmmetrum af efni verið dælt úr höfninni og innsiglingin einnig dýpkuð. Óskastaðan er að ná dýptinni í níu og hálfan metra. „Þetta er löngu, löngu tímabært,“ segir Rafn Jónsson, verksmiðjustjóri. „Við erum komin með skip eins og Sigurð, sem ristir níu metra, og við höfum þurft að sæta flóði og fjöru til að koma honum inn og út. Það hefur gengið slysalaust til þessa, en samt með erfiðleikum.“

 

Deila: