Hornsteinn efnahagslegrar hagsældar

15
Deila:

„Árið var að mörgu leyti hagfellt fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með fjárhagslega afkomu þjóðarinnar. Þótt ýmsar efnahagslegar stoðir hefðu gefið eftir stóð sjávarútvegurinn sterkt. Hann hefur staðið af sér ýmislegt í gegnum tíðina og hann mun gera það áfram; en það er þó ekki sjálfgefið,“ skrifar Jens Garðar Helgason fráfarandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í rafrænni ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2019. Þar skrifar hann ennfremur:

„Allt frá því ég man eftir mér hafa ýmsir haft af því ánægju og atvinnu að níða skóinn af sjávarútveginum. Á sumu hef ég skilning, þjóðin er þrasgjörn, en annað á ég erfiðara með að skilja. Það skipulag sem við nú höfum á veiðum, vinnslu og sölu á sjávarafurðum, er hryggjarstykkið í sterkum sjávarútvegi. Kerfið sem okkur auðnaðist að taka í notkun upp úr 1980 hefur í öllum aðalatriðum reynst afar farsælt. Það væri vonandi að sem flestir gerðu sér grein fyrir því, að miklar breytingar á kerfinu munu kosta greinina og þjóðarhag háar fjárhæðir.

Samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja er hornsteinn efnahagslegrar hagsældar á Íslandi. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði geta Íslendingar ekki selt vörur sínar á því verði sem ásættanlegt er. Oft er látið eins og það sé lítið mál að selja hina ýmsu framleiðslu. Það er ekki þannig og það verður aldrei þannig. Góðir sölusamningar, samskipti og tengsl við kaupendur í útlöndum grundvallast oft á áratugalangri sögu og í henni felast oft mikil verðmæti,“ skrifar Jens Garðar.

Sjá ársskýrslu samtakanna hér.

 

 

Deila: