Verulegur niðurskurður þorskafla við Færeyjar lagður til
Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, hefur kynnt ráðleggingar sínar um hæfilegan afla af þorski, ýsu og ufsa innan lögsögu Færeyja. Ráðgjöfin er byggð á niðurstöðum nýjasta stofnmats. ICES leggur til að þorskafli á næsta ári fari ekki yfir 6.247 tonn og er það um 47% lækkun frá tillögum stofnunarinnar fyrir þetta ár. Undanfarin ár hefur verið veitt verulega umfram ráðleggingar ICES og fór aflinn í fyrra í rúm 20.000 tonn.
Helsti þáttur minni ráðgjafar er lakara fæðuframboð undanfarin ár samfara lélegri nýliðun en gert var ráð fyrir.
Lagt er til að ýsuafli fari ekki yfir 11.440 tonn og er það svipað og ICES lagði til fyrir þetta ár. Hrygningarstofn ýsunnar er í vexti og er hann nú talinn um 52.245 tonn. Það eru árgangarnir frá 2016 og 2016, sem bera vöxtinn uppi, en þeir eru metnir yfir meðaltali í stærð.
Lagt er til að ufsaafli verði ekki meiri en 27.368 tonn og er það samdráttur um 23% frá ráðleggingu fyrir þetta ár. Hrygningarstofn ufsa hefur staðið vel síðan 2014. Veiðiálag er þó áfram meira en það sem myndi gefa mesta varandi veiði.