Hafið heillaði

7
Deila:

,,Það lá svo sem ekki beinast við að fara á sjóinn. Enginn úr minni fjölskyldu var á sjó á þessum tíma en það var eitthvað spennandi við sjóinn sem heillaði mig,” segir Sigurbjörn Björnsson, yfirvélstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Venusi NS í samtali á heimasíðu Brims hf. .

Sigurbjörn er Skagamaður en ættaður úr Borgarfirðinum.

,,Ég var í sveit í sjö sumur hjá frændfólki mínu á Hóli í Lundareykjadal svo það má segja að ég hafi betur þekkt til sveitastarfa en nokkurn tíman til sjómennsku. Einhvern veginn atvikaðist það þó þannig að ég sótti um á togaranum Krossvík AK 300 og fékk þar pláss upp á hálfan hlut. Ég þekkti engan um borð og var ekki með neinar tengingar inn í sjávarútveginn. Þetta var árið1975 og ég var þá 15 ára gamall. Ég var á Krossvík allt þetta sumar. Var nú drullu sjóveikur en allir í áhöfninni tóku mér vel, svo þetta gekk ljómadi. Það var s.s. ekki óalgengt að strákar færu til sjós þetta ungir en oftast þá með feðrum sínum eða nánum ættingjum,” segir Sigurbjörn en hann segir að reynslan á Krossvíkinni hafi síður en svo dregið úr áhuga hans á sjónum.

Hélt að ég væri kominn með framtíðarvinnu

Sigurbjörn Sigsteinsson

,,Ég fór næst í afleysingar á Sigurborgu AK 375 sumarið 1976 og var svo aftur þar á netavertíð 1977.  Eftir þá vertíð fórum við á humarveiðar og var ég þá fyrst skráður vélstjóri, þá nýorðinn 17 ára. Ég var 2 vélstjóri þetta sumar og um haustið fór ég í fjölbrautaskólann á Akranesi þar sem þá var hægt að taka fyrsta stig Vélskólans.

Ég fór svo aftur á Krossvíkina um vorið 1978. Ég hafði reyndar farið í einhverjar afleysingar í millitíðinni, svo sem áramótatúra og var á þeim tíma háseti og netamaður auk þess sem ég leysti af í vélinni meðan ég var í Vélskólanum. Fékk svo fastráðningu á Krossvíkinni sem vélstjóri eftir útskrift úr Vélskólanum1983. Ég tók smiðjutímann hjá Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness á árunum 1985 og 1986. Eftir smiðjuna fór ég aftur á Krossvíkina og var þar til 1992 þegar hún var seld til Færeyja. Áhöfnin færðist yfir á Harald Böðvarsson AK 12 og á því skipi var ég þar til 1998. 

Reyndar hélt að ég um það leyti að ég væri kominn með framtíðarstarf í landi hjá Norðuráli sem var þá að taka til starfa. Það breyttist eftir 10 mánuði í landi þegar mér bauðst pláss á Óla í Sandgerði AK 14 en hann var fyrsta nýsmíði HB í 35 ár. Ég var á því skipi þar til Ingunn AK 150 kom til landsins frá Chile.2001 Áhöfinn fluttist yfir og Óli var seldur aftur til Noregs. Ég var á Ingunni allan tíman sem HB og síðar HB Grandi gerðu skipið út. Ingunn var seld 2015 en sama ár fengum við Venus NS150 sem var smíðaður í Tyrklandi.  Ég var í nokkrar vikur í Istanbul í Tyrklandi áður en við sigldum Venusi heim í maí 2015 og ég hef verið þar síðan,” segir Sigurbjörn en hann segist hafa verið heppinn að því leyti að vera aðeins á góðum og vel mönnuðum skipum. 

Mikil happafley

,,Öll þessi skip eru mikil happafley sem hafa aflað vel. Frá því ég byrjaði til sjós fyrir 46 árum hef ég verið einstaklega lánsamur. Lítið um slys eða óhöpp, sem heitið getur, á þeim skipum sem ég hef verið á. Um borð Ingunni varð þó slys í löndun á gulldeplu þegar tveir löndunarmenn misstu meðvitund ofan í lest. Ég þurfti að bjarga þeim upp rænulausum en allt fór þó vel. Þeir náðu sér að fullu en annars hefur allt gengið eins og í sögu.”

Sigurbjörn segir að gríðarlegar breytingar og tækniframfarir hafi orðið á þeim tíma sem hann hefur verið til sjós.

,,Það er varla hægt að bera þetta saman. Reyndar er margt af þessu gamla betri framleiðsla en sumt af þessu nýja dóti. Aðbúnaður í dag, miðað við fyrri tíma, er allur annar Í þessum gömlu skuttogurum var bara ein sturta fyrir 15 kalla (sumir voru reyndar ekkert að nota hana) en á Venusi er hver skipverji með sitt baðherbergi og þar að auki eru bæði sauna og heitur pottur um borð. Ég myndi ekki segja að teygjulakið sé mesta byltingin en það var fínt að fá það,” segir Sigurbjörn brosandi. Hann segir það sitt helsta lán að hafa unnið með góðum mönnum.

,,Ég hef alltaf verið með frábæra samstarfsmenn, hvort heldur það er áhöfn eða samstarfsmenn í landi og ber að þakka fyrir það.”

Sigurbjörn segir það sína skoðun að Sjómannadagurinn hafi klárlega minna vægi í hugum fólks í dag en hann hafði hér áður fyrr. Ekki sé þó við almenning einan að sakast. Sjómenn verði að líta í eigin barm. Verulega hafi dregið úr þátttöku sjómanna í hátíðarhöldum á Sjómannadaginn.

Deila: