Stefnt að 50% samdrætti í losun
Íslensk stjórnvöld ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi stefna í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs frá 2005 til 2030. Unnið verður sameiginlega að skilgreindum aðgerðum sem stuðla eiga að því að markmiðið náist. Þetta er inntak yfirlýsingar sem gefin var út fyrir helgi.
Í yfirlýsingunni segir að hún feli í sér mikla áskorun enda hafi orðið mikill samdráttur í losun undanfarin ár. Næstu skref reyna því enn frekar á gott samstarf stjórnvalda og greinarinnar, þannig að markmiðinu verði náð og samkeppnishæfni sjávarútvegs um leið treyst enn frekar. Unnið verður að þessu marmiði m.a. með sameiginlegum aðgerðum á grunni tillagna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.