Veðrið í júní strandveiðimönnum óhagstætt

Tæplega fimm þúsund og fimm hundruð tonn af þorski eru komin á land, nú þegar veiðitímabil strandveiða er hálfnað.
Heildarkvótinn í ár er tíu þúsund tonn. Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna segir í samtali við ruv.is að veðrið í júní hafi verið sjómönnum óhagstætt. Hver bátur má sækja miðin í 12 daga í mánuði, frá mánudegi til fimmtudags. Hver róður má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir. Hámarksafli í hverjum róðri er 774 kíló af þorski og mest má nota fjórar handfærarúllur.
45 bátar nýttu alla dagana í júní en þeir voru 155 í fyrra. Þetta er mikill viðsnúningur frá gæftum í maí, þá nýttu 135 bátar veiðidagana en þeir voru 41 í fyrra.
Veiðar ganga misvel. Mestur er aflinn á svæði A sem er frá Eyja- og Miklaholtshreppi að Súðavíkurhreppi. Rúmlega þrjú þúsund tonn veiddust í maí og í júní, rúmlega 200 tonnum meiri afli en kom á land í fyrra. Verr gengur á svæði D sem nær frá Hornafirði að Borgarbyggð. Þar hafa veiðst tæplega þúsund tonn samanborið við rúm fjórtán hundruð tonn í fyrra. Meðalverð fyrir óslægðan þorsk veiddan á handfæri á fiskmörkuðum í ár er 67 krónum hærra en á síðasta ári.
Örn Pálsson segir að kvótinn hafi klárast 19. ágúst í fyrra. Þá höfðu veiðst tíu þúsund og sjö hundruð tonn eftir að ráðherra jók kvótann. Hann segir ljóst að bæta verði þúsund tonnum við til þess að hann dugi sjómönnum út ágúst. Þorskur var 91 prósent aflans í fyrra en hlutfallið er þremur prósentum hærra í ár.