Skipverjum af Heinaste dæmdar bætur

13
Deila:

Gerðardómur í Walvis Bay hefur gert útgerðarfyrirtækinu ArcticNam að greiða skipverjum á togaranum Heinaste 1,8 milljónir namibískra dollara í bætur. ArcticNam er í eigu Samherja og þriggja namibískra félaga. Fulltrúi namibísku eigendanna segir þá standa heilsuhugar við bakið á skipverjunum á sama tíma og þau deili við íslensku eigendurna um rekstur ArcticNam.

Þetta kemur fram á namibíska vefmiðlinum New Era Live.  Fréttastofa ruv.is hefur gerðardóminn undir höndum.

Skipverjunum var sagt upp störfum í desember 2018 og voru aðrir ráðnir tímabundið í þeirra starf. 

Fram kemur í frétt New Era Live að skipverjarnir hafi ekki fengið greiddan uppsagnarfrestinn. Þeir leituðu því til gerðardómsins og kröfðust þess að fá tjón sitt bætt. Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ArcticNam bæri að greiða skipverjunum 1,8 milljónir namibískra dollara fyrir lok þessa mánaðar.

Heinaste var  kyrrsettur í tengslum við rannsókn yfirvalda í Namibíu á Samherjaskjölunum en þegar kyrrsetningunni var aflétt var togarinn seldur til félagsins Tunacor Fisheries.

Virgillo De Sousa, talsmaður þeirra namibísku félaga sem eiga 51 prósent eignarhlut í ArcticNam, segir við New Era að þeir standi heilshugar með sjómönnunum. 

Þeir standi sjálfir í deilum við íslensku eigendurna um hvernig fyrirtækið var rekið og útiloka ekki lögsókn.  „Fyrirtækið á engar eignir í dag og er því tekjulaust. Við munum hittast á hluthafafundi í þessari viku til að sjá hvernig er hægt að leysa þetta.“

Phillip Munenguni, talsmaður verkalýðsfélagsins sem sótti málið fyrir skipverjana, segir við New Era að ef greiðslurnar hafi ekki borist fyrir lok þessa mánaðar farið málið fyrir dómstóla. „Þeir hafa þjáðst of lengi og ég ætla að sjá til þess að þeir fái hverja krónu.“

Deila: