Bandaríski herinn kannaði hugsanlega olíumengun

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nýlega tilkynning frá áhöfn fraktskips um hugsanlega olíumengun djúpt suður af Reykjanesi. Slíkar tilkynningar eru ætíð kannaðar nánar í samstarfi við ýmsar stofnanir innanlands og í mörgum tilvikum einnig Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) og samstarfsstofnanir í nágrannalöndunum.
Í þessu tilviki var gripið var til þess ráðs að fara þess á leit við bandaríska sjóherinn hvort möguleiki væri á að senda P-8 kafbátaleitarflugvél frá bandaríska sjóhernum sem staðsett var á Keflavíkurflugvelli til athuga aðstæður. Sjóherinn brást vel við beiðninni og kannaði P-8 eftirlitsflugvél svæðið. Sem betur fer reyndist engin olíu mengun vera á staðnum.
Landhelgisgæslan leitaði álits Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og fram kom að um þessar mundir er talsvert um svif og átu í hafinu umhverfis landið og möguleiki á að ruglast á mengun og þörungablóma.
Bandaríski sjóherinn hefur tímabundna viðveru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem kafbátaeftirliti á Norður-Atlantshafi er stjórnað. Landhelgisgæslan er afar þakklát bandaríska sjóhernum fyrir að bregðast við beiðninni með skjótum hætti enda er mikilvægt að eiga þess kost að bregðast hratt við ef mengunarslys verða innan efnahagslögsögunnar.