Mikið um hnúðlax í norskum ám

Hnúðlax hefur gengið í miklum mæli í ár á Noregi í ár. Mest er um hann í austanverðri Finnmörku, en hann hefur einnig fundist miklu sunnar. Talið er að fjöldinn nú sé um 6.000 laxar og árnar, sem kannaðar hafa verið eru um 30.
Norska sjávarútvegsráðuneytið fékk í sumar sérstaka fjárveitingu að upphæð 14 milljónir íslenskra króna til að kanna útbreiðslu hnúðlax í norskum ám. Þó mest sé um hnúðlaxinn í Austur-Finnmörku verða göngur laxins kannaðar allt frá Finnmörku og suður eftir norsku ströndinni. Hnúðlaxinn hefur veiðst bæði í sjó og ám í Finnmörku og mikið orðið vart við hann í norður hluta Troms. Sunnar er minna um laxinn, hugsanlega vegna minna eftirlits. Þá hefur minna vatn verið í ám í suður hlutanum allt suður í Oslófjörðinn. Nú er gert ráði fyrir meira rennsli í árnar og því gæti hnúðlax gengið í auknum mæli uppí árnar.
Matið á fjölda hnúðlaxa byggist á tilkynningum veiðimanna fyrst og fremst og ber að tilkynna um hann eins og aðra laxfiska, sem veiddir eru í norskum ám.
Hnúðlaxinn var lengst af aðeins í Kyrrahafi, en eftir að Rússar fluttu hann yfir í Barentshafið hefur hann breiðst hratt út og finnst hann í vaxandi mæli í íslenskum ám.