Bergey með mest af ýsu

Allt bendir til þess að nánast ekkert verði óveitt af ýsukvóta þessa ár, þegar nýtt fiskveiðiár hefst þann fyrsta september. Leyfilegur heildarafli er 45.419 tonn og nú er aflinn, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, orðinn 45.095 tonn. Því eru óveidd 324,5 tonn.
Reyndar var ýsukvótinn aukinn um 8.000 í vor vegna mikillar ýsugengdar sem var að valda mörgum útgerðum vandræðum, þar sem svo mikið af henni kemur við veiðar á öðrum tegundum. Sú úthlutun er ekki inni í tölum Fiskistofu, þar sem hún kemur til frádráttar aflamarks á komandi fiskveiðiári. Hún reiknast því ekki inn í úthlutun og afla þessa árs. Ýsukvóti næsta árs verður í samræmi við það 40.700 tonn.
Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu hafa fimm skip veitt meira en þúsund tonn af ýsu á þessu fiskveiðiári. Það eru Bergey VE með 1.392 tonn, Vestmannaey VE með 1.278 tonn, Baldvin Njálsson GK með 1.242 tonn. Höfrungur III AK með 1.024 tonn og Breki VE með 1.016 tonn.