Sammælast um að skerpa á verklagsreglum

„Myndir sem teknar voru af særðum eldislaxi birtust í fjölmiðlum á dögunum. Eðlilega skapaðist talsverð umræða um þær í kjölfarið. Við eldi á dýrum geta óhöpp og meiðsli átt sér stað. Því miður er erfitt að komast alveg hjá þeim. Þó gera fiskeldisfyrirtæki, hvort sem eldið er á sjó eða landi, allt sem þau geta til að vernda fiskinn enda er hann framleiðsluvara þeirra. Þær myndir sem birst hafa að undanförnu í fréttum og samfélagsmiðlum eru sem betur fer ekki lýsandi fyrir ástand fiska í kvíum við Ísland. Úr því skal þó ekki dregið að myndirnar sýna það sem getur gerst þegar fiskur slasast.“
Svo segir í færslu á heimasíðu Samtakafyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:
„Öllum eldisfyrirtækjum á Íslandi er skylt að gera Matvælastofnun (MAST) grein fyrir afföllum sem verða í kvíum þeirra og er það gert með reglubundnum hætti. Þessar tölur eru aðgengilegar á heimasíðu MAST. Starfsfólk í fiskeldi fylgist daglega með fiskum og seiðum í kvíum til að gæta að því að allt sé í lagi. Ætla má að enginn atvinnurekstur á Íslandi búi við jafn stranga eftirlitsumgjörð og fiskeldi. Þá taka alþjóðlegir vottunaraðilar reglulega út framleiðsluna til að viðhalda gæðum.
Eldisfyrirtækin hafa engu að síður sammælst um, í kjölfar þeirrar umræðu sem fór af stað í vikunni, að skerpa á verklagsreglum sínum um eftirlit með velferð fiska í kvíum þeirra. Enginn vafi má leika á vilja þessara fyrirtækja til að huga vel að þessum þætti starfseminnar.“