Strandveiðar fái hluta af byggðakvóta stærri útgerða

Landssamband smábátaeigenda hefur farið fram á auknar heimildir til strandveiða í ár svo ekki þurfi að stöðva veiðarnar áður en tímabilinu lýkur. Þá sé nauðsynlegt að lögfesta breytingar sem tryggi 48 veiðidaga á hverju tímabili og skerða um leið byggðakvóta til stærri útgerða.
Í síðasta mánuði var tæpum 1200 tonnum af þorski úthlutað aukalega til strandveiða svo hægt yrði að veiða út ágúst og ljúka þar með tímabilinu. Eftir mikla veiði undanfarið er ljóst að þessar heimildir duga ekki til og gæti þurft um 1000 tonn til viðbótar. Þetta er sama staða og kom upp í fyrrasumar þegar stöðva þurfti strandveiðar 20. ágúst.
Sjávarútvegsráðherra í þröngri stöðu
„Vissulega er ráðherra í þröngri stöðu í þessu máli,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í samtali á ruv.is. „En það verður kannski að líta til heildarhagsmunanna í þessu.“ LS sendi sjávarútvegsráðherra bréf í síðustu viku þar sem farið er fram á að hann tryggi að ekki komi til stöðvunar áður en veiðitímabilinu lýkur. Ráðherra hefur svarað því að hann hafi ekki lagalega heimild til að auka heimildir enn frekar.
Auknar heimildir þyrfti að sækja annað
Á strandveiðum má á hverjum báti veiða í 12 daga á mánuði út tímabilið eða 48 daga samtals. Þó má ekki veiða meira en heimildir, sem ákvarðaðar eru í upphafi tímabils, segja til um. Og þær verða ekki auknar nema til komi óráðstafaðar heimildir eða skerðing annars staðar innan þess kerfis sem strandveiðin fellur undir, þar sem einnig er byggðakvóti, línuívilnun og fleira.
Vill skerða byggðakvóta til stærri útgerða
Örn segir að það verði að tryggja strandveiðunum þessa 48 veiðidaga og til þess þurfi að breyta núverandi kerfi. Og hann vill sækja heimildir til stærri útgerða en byggðakvóti hjá stórútgerðinni hafi aukist undanfarin ár. „Þá þarf að skerða þá sem eru með byggðakvóta, þar sem eru ekki dagróðrabátar. Þessi stærri skip myndu þá sæta skerðingu í eitt og eitt ár þegar svona staða kæmi upp.“