Tjarnsléttur sjór í allt sumar

11
Deila:

sfisktogarinn Viðey RE kom til Reykjavíkur á mánudag eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið. Aflinn var um 160 tonn, uppistaðan þorskur, og segir skipstjórinn, Kristján E. Gíslason (Kiddó), í samtali við heimasíðu Brims, að rjómablíða hafi verið á miðunum og tjarnsléttur sjór en þannig hafi veðráttan verið í sumar.
,,Við höfum verið á grunnslóð á Vestfjarðamiðum í sumar og það er langt síðan jafn góður afli fékkst á grunnslóðinni. Aflinn er aðallega stór og góður þorskur og svo höfum við verið að fá kola og steinbít auk ufsa og ýsu. Karfaskammturinn er svo að sjálfsögðu tekinn,” segir Kiddó en hann segist mest hafa verið með skipið að veiðum út af Patreksfirði.
,,Við höfum verið mikið í Nesdýpinu en það þýðir lítið að vera með tvö troll þar. Botninn er harður og erfiður á grunnslóðinni.”
Áhöfnin á Viðey hefur s.s. skoðað djúpkantinn og farið norður á Halann en Kiddó segir að þar sé ekki mikið af fiski og þorskurinn þar sé minni en á grunnslóðinni.
,,Grunnslóðin hefur komið okkur verulega á óvart í sumar. Undanfarin tvö sumur höfum við verið fyrir norðan land vegna þess að það var ördeyða á Vestfjarðamiðum. Staðan nú er gjörbreytt,” segir Kristján E. Gíslason.

Deila: