Góð makrílveiði í Smugunni þessa sólarhringana

14
Deila:

Huginn VE kom úr Smugunni í gær með alls um 1.300 tonn af ferskum og frosnum makríl sem verið er að landa í Eyjum. Kap VE var á miðunum þá og gert var ráð fyrir að skipið legði af stað heimleiðis í gærkvöld eða í dag með fullfermi, um 800 tonn.

Ísleifur VE var þá um það bil að koma í Smuguna og fór í það fyrst að aðstoða Kap við að fylla sig og koma sér heim.

„Veiðin hefur verið upp og ofan það sem af er en ef veiðist vel næstu daga og vikur og fram í miðjan september verður hiklaust hægt að tala um ágætis vertíð,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar í samtali á heimasíðu VSV.

„Makríll hefur varla fundist í veiðanlegum torfum í íslenskri lögsögu í sumar en Norðmenn eru hins vegar að veiðum núna í sinni lögsögu rétt austan við Smugulínuna.

Makríllinn er hvað viðkvæmastur um þetta leyti árs þegar hann er í ætisleit og fitnar hratt. Þegar líður á sumarið og fram á haust gengur fitan inn í holdið og það styrkist. Varan verður að sama skapi betri og verðmætari.“

Deila: