Sterk vísbending um mikið fé sjávarútvegsfyrirtækja

15
Deila:

Ný skýrsla sjávarútvegsráðherra um fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í óskyldum rekstri er sterk vísbending um þá miklu fjármuni sem fyrirtækin hafa úr að spila. Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. Hún fagnar því að skýrslan, sem hún óskaði eftir, sé nú komin þó svo að hún svari ekki þeim spurningum sem settar hafi verið fram. Rætt er við Hönnu Katrínu á ruv.is

„Ég er ánægð með að skýrslan skuli vera loksins komin núna átta mánuðum eftir að Alþingi samþykkti beiðni mína um hana og hálfu ári eftir að skilafrestur rann út og líka að hún skuli koma fyrir kosningar. En auðvitað segir þessi skýrsla ekki einu sinni hálfa þá sögu sem beðið var um. Markmiðið var ekki síst að sýna fram á krosseignatengsl þessara stóru útgerðarfyrirtækja okkar í íslensku atvinnulífi og ítök þeirra í atvinnugreinum sem tengjast ekki sjávarútvegi,“ segir Hanna.

Vildi upplýsingar um hvað verður um arðinn af auðlindinni

„Við vitum að þau standa gríðarlega sterkt fjárhagslega og tilgangurinn var að veita upplýsingar um hvernig hagnaði og arði af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar væri varið. Svo skiptir auðvitað máli fyrir okkar litla samfélag líka að við höfum skýra mynd af þessu vegna hættu á fákeppni og annarra óæskilegra atriða á frjálsa samkeppni,“ segir Hanna. Þetta skipti máli fyrir hag annarra fyrirtækja, ekki síst smærri fyrirtækja, og neytenda. Hún segir það miður að þessar upplýsingar sé ekki að finna í skýrslunni. 

Bókfært virði aukist um 60 milljarða á 4 árum

„En þessar upplýsingar komu ekki. Það eru hvorki upplýsingar um tiltekin fyrirtæki eða félög sem fjárfest er í né atvinnugreinar. Og það er mjög miður. En á hinn bóginn eru þarna upplýsingar sem ég þarf að gefa mér tíma til að grafa ofan í. Til dæmis frá árinu 2017 hefur bókfært virði eignarhluta útgerða og tengdra eignarhaldsfélaga þeirra dótturfélaga og síðan dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga, aukist um tæpa sextíu milljarða króna. Og þetta er bókfært virði þannig að það liggur í hlutarins eðli þetta er töluvert undir raunverulega markaðsvirði,“ segir Hanna.

Segir ekki nema hálfa söguna af raunverulegum ítökum

„Síðan kemur líka fram að heildarvirði eignarhlutanna í öðrum félögum en félögum tengdum sjávarútvegi er 177 milljarðar. Aftur bókfært virði sem er langt undir markaðsvirði og segir því ekki nema hálfa söguna í mesta lagi af raunverulegum ítökum þessara stóru útgerðarfyrirtækja í íslensku atvinnulífi,“ segir Hanna. Hún og flokksfélagar henni í Viðreisn hyggist kafa betur ofan í upplýsingarnar.

Hefurðu komið á framfæri einhvers konar mótmælum við því að skýrslan innihaldi ekki þau svör sem óskað var eftir?

„Nei, ég hef ekki rætt við ráðherra né aðra um málið. Við í Viðreisn erum rétt að klára að fara yfir skýrsluna,“ segir Hanna. 

En hvað finnst þér um að bókfært virði hafi aukist á síðustu árum?

„Raunverulega má segja útfrá einhverju eðlilegu viðskiptaumhverfi er jákvætt að fyrirtæki hagnist. Það er líka jákvætt að fyrirtæki sem hagnast í heiðarlegum rekstri dreifi áhættu sinni með því að fjárfesta í atvinnulífinu í kringum sig. En það eru þolmörk þegar og þau þolmörk hljóta að vera lægri þegar um er að ræða arð af starfsemi sem er bundin jafnmiklum forréttindi og starfsemi þessara stóru útgerðarfyrirtækja er, þ.e.a.s. óheftur aðgangur að þjóðarauðlindinni okkar og ótímabundinn eins og hann er nú og án þess að það komi eðlilegt markaðsgjald fyrir. Þ.e.a.s. án þess að markaðnum sé treyst fyrir því að láta framboð og eftirspurn meta hvert raunverulegt virði þess er. Þá myndast arður í skjóli stjórnvalda sem hefur verið ráðstafað á þennan hátt. Það er eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Hanna. Það sé þó erfitt að taka sterkara til orða fyrr en hún hafi grandskoðað skýrsluna. 

Stjórnvöld hljóti að skoða málið

„Ég hefði viljað fá hreinlega þær upplýsingar sem við báðum um því þá væri sagan miklu skýrari fyrir okkur núna. En þetta er sterk vísbending um þá miklu fjármuni sem útgerðarfyrirtækin hafa úr að spila þegar þau hafa sinnt sinni starfsemi, þ.e.a.s. sjávarútveginum sjálfum, og hafa úr að spila til að fjárfesta í öðrum geirum í íslensku samfélagi. Það hlýtur að vera eitthvað sem stjórnvöld og almenningur telja vera ástæðu til að skoða nánar,“ segir Hanna.

Deila: