Ánægður með uppgjörið og afkomuna

18
Deila:


„Ég er ánægður með uppgjörið og afkomuna á fyrri hluta ársins. Rekstur félagsins er stöðugur þrátt fyrir óróa á heimsmörkuðum. Engu að síður eru alltaf sveiflur í sjávarútvegi eins og dæmi frá í vetur sýna þegar leyfðar voru loðnuveiðar eftir nokkurra ára hlé en þær gengu vel og sala loðnuafurða sömuleiðis.“

Þetta segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf. um afkomu félagsins á fyrri helmingi þessa árs á heimasíðu félagsins. Þar segir hann ennfremur:

„Vegna sveiflna og stöðugra breytinga í sjávarútvegi verða eigendur og stjórnendur að horfa til langs tíma. Í áratugi hefur það verið þaulhugsuð stefna Brims að kyrrsetja í félaginu stóran hluta hagnaðar á ári hverju til að styrkja og auka við eigið fé félagsins. Þannig hefur fyrirtækið á hverjum tíma getað fjárfest til frekari uppbyggingar, t.d. í öflugum skipum, mannauð, aflaheimildum, nýrri tækni og tækjabúnaði og nýsköpun til að takast á við breytta tíma.

Á þessu ári eru það nýlegar fjárfestingar í ísfisktogurum og hátæknivinnslu í Norðurgarði sem skila auknum verðmætum í botnfiski og á uppsjávarsviði félagsins skilaði öflugt sölustarf dótturfélags Brims í Japan góðum verðum fyrir loðnuafurðir á þessu ári en Brim fjárfesti í félaginu fyrir tveimur árum.

Brim birtir nú í fyrsta sinn umhverfisuppgjör fyrir fyrri hluta ársins en félagið hefur skuldbundið sig til að draga úr losun í samræmi við Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 2015. Í uppgjörinu kemur fram að okkur miðar á þeirri leið en enn er langt í land. Með reglulegu uppgjöri eykst agi sem er nauðsynlegur til að ná árangri í baráttunni gegn loftlagsvánni. Í árs- og samfélagsskýrslu félagsins birtist uppgjör fyrir ófjárhagslega þætti í starfi félagsins sem áhrif hafa á umhverfi og samfélag. Þar á meðal upplýsingar um eignarhald Brims í öðrum félögum og sést þar að félagið fjárfestir í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.
Efnahagur Brims er traustur í dag, eigið fé félagsins nemur 50,7 milljörðum íslenskra króna. Það gerir félaginu kleift að fjárfesta þegar tækifæri gefast og eiga möguleika á fjármögnum á hagstæðum kjörum. Til þess að Brim verði áfram burðarstoð í atvinnulífi landsmanna verður fyrirtækið að vera öflugt og eiga fjármagn til að fjárfesta.“

Stöðugur rekstur á fyrri hluta árs

  • Tekjur Brims á öðrum ársfjórðungi voru 128,7 milljónir evra í samanburði við 60,3 milljónir evra á sama tíma 2020. EBITDA fjórðungsins jókst úr 9,4 milljónum evra árið 2020 í 20,6 milljónir evra á þessu ári.
  • Meginskýringar á auknum tekjum og bættri afkomu eru góð loðnuvertíð, auknar veiðar ísfiskstogara og vinnsla á botnfiski í endurnýjaðri fiskvinnslu félagsins við Norðugarð í Reykjavík og aukin sala dótturfélags í Japan á loðnuafurðum.
  • Tekjur á fyrri hluta ársins námu ríflega 200 milljónum evra í samanburði við 133 milljónir evra í fyrra. EBITDA framlegð fyrstu sex mánaða ársins var 39,7 milljónir evra samanborið við 17,1 milljónir evra á fyrri hluta ársins 2020.
  • Efnahagur félagsins er traustur. Eignir eru um 762 milljónir evra og eigið fé 346,3 milljónir evra.
  • Brim birtir nú fyrst fyrirtækja í sjávarútvegi umhverfisuppgjör fyrir fyrri árshelming og kemur þar fram að bein losun félagsins nemur 33 þúsund CO2 ígildistonnum á fyrri hluta ársins í samanburði við rúm 68 þúsund allt árið í fyrra og að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er 20,4% af orkunotkun á fyrstu sex mánuðum ársins en var 21% í fyrra.
Deila: