Ýsa að hætti Miðjarðarhafs

Nú skulum við elda ýsu og nota við það aðferð sem runnin er upp í löndum við Miðjarðarhafið. Þetta er hollur og bragðgóður réttur og þó mikið af innihaldi sé í sósunni, er hann fremur auðveldur í matreiðslu.
Innihald:
Sósan
1 msk. ólívuolía
1 bolli af söxuðum lauk
3 hvítlauksgeirar, marðir
¼ tsk. rauðar piparflögur
½ bolli saxaður fennika
1 dós, um 800g af afhýddum tómötum og safinn
¾ bolli fersk basilíka, fínt söxuð
½ bolli þurrt hvítvín
¼ bolli svartar steinlausar ólífur, skornar í tvennt
Sjávarsalt
Nýmalaður svartur pipar
Fiskurinn:
4 ýsubitar um 180g roð- og beinlausir
Matarolía til steikingar
Sjávarsalt
Nýmalaður svartur pipar
1 msk. ólífuolía
Aðferðin:
Sósan:
Hitið olíuna í stórum potti þar til hún er orðin snarpheit. Bætið þá út í lauk, hvítlauk og rauðu piparflögunum og látið krauma um stund eða í um 5 mínútur. Bætið þá fennikunni út í og látið krauma þar til hún er orðin mjúk. Lækkið þá hitann og bætið tómötunum út í. Merjið tómatana og hrærið vel í og látið sjóða í 5 mínútur í viðbót. Bætið þá basilíkunni, víninu, ólífunum, 1 tsk. af salti og möluðum pipar á hnífsoddi. Lækkið hitann og látið sósuna malla í um 15 mínútur eða þar til hún hefur þykknað.
Fiskurinn:
Þurrkið fiskistykkin og penslið þau með olíu og kryddið með salti og pipar. Steikið þau í snarpheitri olíu um 3-5 mínútur á hvorri hlið. Tíminn fer nokkuð eftir þykkt stykkjanna. Jafnið sósunni á fjóra diska og færið fiskstykkin upp á þá. Gott gæti verið að hafa nýtt brauð með og glas af hvítu eða rauðu víni.