Teljum okkur hafa náð ágætis mælingu

„Við sáum loðnu mest miðsvæðis á rannsóknarsvæðinu. Mest var af ungloðnu fyrir vestan og fullorðinni loðnu fyrir norðan. Svo erum við bara að vinna úr gögnunum og lítið hægt að segja til um magnið ennþá,“ segir Birkir Bjarnason, leiðangursstjóri í loðnuleiðangri Hafró, sem nú er lokið.

„Við lentum aðeins í töfum vegna veðurs en náðum engu að síður yfir allt svæðið og teljum okkur hafa náð ágætis mælingu þannig, segir Birkir. Hann segir að ís hafi ekki hamlað yfirferð skipanna, Þetta sé mikill munur frá því í fyrra. „Þá hamlaði ís mikið á svæðum þar sem við vorum að sjá loðnu núna. Við höfum sum ár farið jafn langt norður og núna og höfum sum ár séð loðnuna vera að teygja sig lengra norður en nú,“ segir Birkir Bjarnason.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.