Gull og grænir loðnuskógar!
Stóraukinn loðnukvóti á næstu vertíð getur valdið minna atvinnuleysi, lægri verðbólgu og auknum ráðstöfunartekjum fyrir almenning í landinu. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka í samtali á ruv.is . Hagvöxtur gæti orðið einu prósentustigi meiri en búist var við. Fyrst þarf þó að finna fiskinn, veiða hann og koma honum á markað.
Hafrannsóknarstofnun hefur leyft veiðar á rúmlega níuhundruð þúsund tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð. Loðnukvótinn hefur ekki verið meiri í nærri 20 ár. Í fyrra var úthlutað tæplega 130.000 tonnum. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að rétt sé að reka þann varnagla að ekki sé búið að finna og veiða alla þessa loðnu.
„Að því sögðu þá eru stærðartölurnar slíkar að þetta gæti munað hagkerfið 50-60-70 milljörðum í útflutningstekjum. Og þegar slíkar tekjur koma sem viðbót við annað á sama tíma og aðrar útflutningsgreinar eru að rétta úr kútnum, þá er óhætt að vera bjartsýnn á að útflutningurinn sé að rétta við sér fyrr en seinna,“ segir Jón Bjarki.
Spá Íslandsbanka gerði ráð fyrir 3,6 prósenta hagvexti á næsta ári, en Jón Bjarki gerir ráð fyrir að hann geti orðið allt að einu prósentustigi meiri, ef vel gengur að veiða loðnuna og koma henni á markað. En hvernig verður venjulegt fólk vart við þessa aukaprósentu í hagvextinum?
„Það heyrir af fleirum og fleirum í stórfjölskyldunni, kunningjahópnum og víðar sem fá atvinnu eftir atvinnuleysi, gjaldeyristeknainnflæðið skilar hraðari styrkingu krónunnar heldur en ella væri, það skilar sér aftur í hraðari hjöðnun verðbólgu og minni hættu á því að verðhækkanir á innflutningi éti upp þær launahækkanir sem eru að koma um áramótin. Þannig að á endanum batnar hagur vonandi flestra ef ekki allra Íslendinga þegar verður svona bati, sérstaklega þegar hann er drifinn af áframhaldandi útflutningi,“ segir Jón Bjarki Bentsson.