Orkuskipti og gríðarmikill loðnukvóti

Aðalfundi Landsambands smábátaeigenda eru gerð góð skil í nýjasta tölublaði Ægis, sem nú er að koma út. Farið er yfir úthlutun stærsta loðnukvóta síðustu tveggja áratuga og rætt við Gunnþór Ingvarsson framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar. Þá er rætt við skipstjórann Sævar Þór Ásgeirsson, sem um árabil var með bátinn Sögu K á línuveiðum við Noreg. Hann segir Íslendingar standa Norðmönnum framar í ýmsum málum. Þeir vinni fiskinn meira heimafyrir en Norðmenn og afhendingaröryggið sé mun meira.

Í blaðinu er einnig fjallað um „rafmagnaðan“ fiskibát frá Navis og bát sem Yanmar er að þróa en hann veriður knúinn vetni. Þá er fjallað um rafvæðingu hafna landsins og fleiri nýjungar, sem leiða til minnkandi brennslu olíu.
Ritstjóri Ægis. Jóhann Ólafur Halldórsson, ritar meðal annars svo í leiðara blaðsins. „Við getum hins vegar gert margt til úrbóta og erum að því. Orkuskiptin, sem koma við sögu hér í blaðinu, eru dæmi
um þetta. Tæknilausnir til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis í höfnum eru dæmi um þetta. Reglur um brennslu svartolíu í landhelginni. Ný skip með vélbúnaði sem brennir mun minna eldsneyti en búnaður eldri skipanna. Það er bara tímaspursmál hvenær hér verða gerð út til fiskveiða skip og
bátar sem knúin eru rafmagni eða vetni, líkt og fjallað er um í blaðinu. Allt þetta er dæmi um aðlögun sjávarútvegsins að breyttum kröfum og umhverfi, bæði kröfum okkar sjálfra og á heimsvísu. Sjávarútvegurinn á Íslandi sem atvinnugrein situr því á engan hátt eftir í orkuskiptunum, fjarri því. Með vitund þeirra sem í greininni starfa um það hve miklu skiptir að skipa sér alltaf á fremsta bekk er meiri en svo.“