Allt svo lifandi nema fiskur í kassa

Maður vikunnar að þessu sinni er Patreksfirðingur, stundaði fiskvinnslu og sjómennsku á Suðurnesjum, en starfar nú við laxeldi á Djúpavogi. 13 ára var hann farinn að slægja fisk og salta í stæður í Garðinum.
Nafn:
Erlendur Guðmar Gíslason.
Hvaðan ertu?
Fæddur á Patreksfirði 1973 átti þar góða æsku þar og eyddi unglingsárunum á Suðurnesjum og Reykjavík í skóla og fór aftur heim 1994.
Fjölskylduhagir?
Í sambúð með Jenný Kristínu Sæmundsdóttur, saman eigum við eina dóttur 13 ára og ég á aðra 24 ára frá fyrra sambandi.
Hvar starfar þú núna?
Framleiðslustjóri sjóeldis hjá Fiskeldi Austfjarða á Djúpavogi.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Pabbi, Gísli Kristinsson var skipstjóri alla sína starfsævi og var tenging mín við sjávarútveg í æsku. Ég hef verið um 13 ára að slægja fisk af Sigurði Bjarnasyni GK 100 og salta í stæður hjá Baldvini Njálssyni í Garði nú Nesfiskur. Síðan lá leiðin í skóla og sjó á sumrin á Unu í Garði GK og á handfærum með Óskari Gísla en ég sneri mér að sjómennsku 1993 til 2011 lengst af á Þorsteini BA, síðan kynntist ég laxeldi í sjó.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Án efa fjölbreytnin, það er í mörg horn að líta, landsbyggðin og tengingin við náttúruna. Allt svo lifandi nema fiskur í kassa.
En það erfiðasta?
Ég var búinn að gleyma því en takk fyrir að minna mig á það. Bæta dragnót á bryggjunni á Patreksfirði í sól og blíðu eftir langa daga á sjónum á undan.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í störfum þínum?
Ég veit ekki, flest sem er skrítið í fyrstu á sér yfirleitt eðlilegar skýringar þegar hugsað er út í atburðinn og „hissið“ minnkar. Draga 32.000 króka og fá afla í einn togarakassa er eftirminnilegt.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Án efa Óskar Hörður Gíslason mágur minn, og Þorsteinn Óskarsson í Grindavík, blessuð sé minning Þorsteins.
Hver eru áhugamál þín?
Veiðitengd, stangveiði og skotveiði, skaut mitt fyrsta hreindýr í sumar. Bíltúrar út í buskann.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Ferfætlingar og fiskur, steiktur fiskur og kótilettur í raspi heillar, en ef gera á vel við sig þá er það lax eða lambasteikur á grillið, annars allt sem frúin eldar nema nætursaltaður þorskur. Af hverju að borða hann saltaðan þegar hægt er að fá hann ferskan?
Hvert færir þú í draumfríið?
Ekki langt, mér liður best á Íslandi og yfirleitt feginn að komast heim úr ferðalagi. Draumafrí væri án rafmagns og nútíma þæginda, lífið verður afslappað við þær aðstæður og ómetanlegra.