Útgerð breska togarans Kirkellu ógnað

Breska blaðið Yorkshire Post hefur greint frá því að útgerð breska skipsins Kirkella sé í uppnámi vegna hruns í aflaheimildum eftir samkomulag Norðmanna og Breta um fiskveiðar var gert. Kirkella hafði fyrir Brexit verið að taka um 10.000 tonn af þorski á ári í Barentshafinu, en fær nú aðeins kvóta þar upp á 500 tonn innan lögsögu Noregs. Kirkella er í eigu bresks fyrirtækis, sem er í eigu Samherja og hollenska fyrirtækisins Parlevliet & Van der Plas. Útgerð skipsins stendur að auki til boða 6.500 tonn af þorski við Svalbarða
Framkvæmdastjóri útgerðarinnar segir þetta vera gífurlegt áfall fyrir bæði útgerð og áhöfn, enda standi aðeins helmingur fyrri aflaheimilda til boða. Skipið hafi veitt 8% alls fisk sem seldur hafi verið til veitingastaða sem bjóða upp á fisk og franskar. Nú blasi við að útgerð skipsins muni selja það, skera úthaldið niður eða flytja skipið til annars lands. Að tala um vonbrigði sé allt of vægt til orða tekið. Ekkert hafi verið að marka fallegar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni og ekki sé hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórninni sé hreinlega sama um þetta. Það að fá að veiða 500 tonn af þorski í stað þúsunda tonna, geti ekki talist viðunandi árangur.
Þingmaður Hull, Karl Turner, segir að forsætisráðherrann Boris Johnson hafi ansi miklu að svara fyrir að lofa miklum ávinningi með því að hverfa frá fiskveiðisamningum, sem hafi gilt jafnvel löngu áður en Bretland gekk í ESB. Þrátt fyrir fögur fyrirheit frá ríkisstjórninni hafi henni ekki tekist að tryggja aflaheimildir sem fiskiðnaður Bretlands þarfnist. Það sýni einfaldlega að ríkisstjórninni standi á sama um sjávarútveginn og samfélagið í norðri. Flestir í áhöfn skipsins séu frá Hull og svæðinu þar um kring.

Skipstjórinn Charlie Waddy segist óttast um afkomu og afdrif áhafnarinnar. Ríkisstjórnin hafi kippt fótunum undan útgerðinni. Kvótinn sem skipinu sé ætlaður nú, dugi ekki einu sinni fyrir veitingahús í Hull, sem selji fisk og franskar.
Breska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að útgerðin í Bretlandi munu fá aðgang að 30.000 tonnum af hvítfiski eins og þorski og ýsu og fleiri tegundum í Norðursjó og sé það góður kostur. Sjávarútvegsráðherrann Victoria Prentis segir að það gefi tækifæri fyrir breska flotann og fiskvinnsluna og myndi jafnvægi við ábyrga fiskveiðistjórnun og tækifæri í fiskiðnaðinum. Samband Breta og Norðmanna sé náið og húm meti það mikils.