Bleikja með tómötum

Nú fáum við okkur gómsæta bleikju og matreiðum hana á sérstakan hátt. Það er með smáum tómötum, og hvítvínssósu. Þetta er einstaklega einfaldur og bragðgóður réttur og sérlega heilnæmur, því bleikjan er rík af ómega3 olíum.
Innihald:
1 msk. ólífuolía
800g bleikjuflök í fjórum jöfnum stykkjum
½ tsk. salt
½ tsk. pipar
½ tsk. hvítlauksduft
1 msk. sesame olía
250g cherry tómatar
1 shallot laukur sneiddur þunnt
2 hvítlauksgeirar, marðir
1 bolli hvítvín
½ bolli kjúklingasoð
2 msk. timían, saxað
Aðferðin:
Hitið ólífuolíuna á stórri pönnu. Hreinsið bleikjuna og þurrkið bitana með eldhúspappír. Kryddið á báðum hliðum með salti, pipar og hvítlauksdufti. Látið fiskbitana ná stofuhita. Steikið bleikjubitana, fyrst á holdhliðinni í 2-3 mínútur. Snúð þeim þá á roðhliðina og steikið í um 5 mínútur eða þar til roðið er farið að gyllast.
Takið bleikjuna af pönnunni og haldið heitri. Bætið sesame olíunni út á. Setjið tómatana á pönnuna og látið þá krauma um stund, eða þar til þeir fara að mýkjast. Bætið þá shallotlauknum og hvítlauknum á pönnuna en gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki.
Bætið loks kjúklingasoðinu og hvítvíninu út á pönnuna. Látið sjóða niður í um helming. Færið bleikjubitana upp á disk og jafnið tómötunum og sósunni á bitana. Berið fram með soðnum kartöflum.