Humar hins fátæka manns

Humar er ansi dýr matur og því sjaldan á borðum. Auk þess verða veiðar á humri hér við land bannaðar næstu tvö árin og því óhægt um vik að ná sér í góðan humar. Alltaf má þó fá innfluttan humar, sem við teljum standa langt að baki þeim íslenska að gæðum. Þá er það plan B. Nota þorsk í stað humars og fara í því eftir uppskriftinni hér að neðan.
Innihald:
6 bitar þorskur um 180g hver, roð- og beinlausir
6 bollar vatn
1 bolli hvítur sykur
2 msk. salt
brætt smjör til þess að pensla fiskinn og hafa með réttinum
2 geirar hvítlaukur, marinn
½ sítróna
paprikuduft og sítrónupipar
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C.
Klæðið ofnfast mót innan með álpappír og spreyið með bökunarspreyi
Blandið saman á pönnu, vatninu, sykrinum og saltinu. Leggið bitana síðan í löginn þannig að flæði yfir þá. Hleypið suðunni upp og látið fiskinn krauma í 3-5 mínútur eftir þykkt bitanna.
Bræðið smjörið og bætið hvítlauknum út í það. Færið fiskinn upp af pönnunni og penslið bitana með smjöri og kryddið með paprikuduftinu og sítrónupiparnum. Kreistið smá safa úr sítrónunni yfir bitana.
Færið fiskinn í eldfasta mótið og bakið í ofninum í um 7 mínútur, eða þar til fiskurinn er tilbúinn.
Berið fiskinn fram með bræddu smjöri, soðnum kartöflum og fersku salati að eigin vali.
.