Ný starfsstöð Ísfells á Akureyri

Þjónustufyrirtækið Ísfell flutti á dögunum starfsstöð sína á Akureyri í stærra húsnæði við Hjalteyrargötu 4. Húsið er tæplega 600 fermetrar að stærð og verður þjónusta Ísfells norðan heiða efld enn frekar með tilkomu þessarar auknu aðstöðu. Ísfell bauð viðskiptavinum og samstarfsaðilum til opnunarhátíðar af þessu tilefni.
Stærra húsnæði og aukin þjónusta
„Með flutningum í Hjalteyrargötu 4 fáum við meira rými fyrir starfsemina og þjónustu við viðskiptavini en við höfðum áður. Húsið er líka á frábærum stað í bænum, mjög sýnilegt og aðgengilegt þannig að ég sé mikil tækifæri fyrir Ísfell til að þróa þjónustu áfram á markaðnum hér fyrir norðan,“ segir Þorvaldur Sigurðsson, rekstrarstjóri Ísfells á Akureyri. Starfsmönnum verður fjölgað í þrjá strax í upphafi nýs árs.
„Ísfell kemur víða við sögu í þjónustu við atvinnulífið en við ætlum í kjölfar flutninganna að efla verulega þjónustu okkar á sviði fallvarna- og öryggisbúnaðar, sem og lögbundinna skoðana á hífingarbúnaði fyrir viðskiptavini á Norður- og Austurlandi. Þetta er þjónustusvið sem snýr að bæði skipum og fjölþættri starfsemi í landi, verktakastarfsemi og ýmsum öðrum sviðum en Ísfell er eitt öflugsta fyrirtæki landsins í þessari þjónustu,“ segir Þorvaldur en önnur stór breyting með tilkomu nýja húsnæðisins er stærri og fjölbreyttari verslun. Þar býðst fatnaður, öryggisbúnaður og ýmis konar rekstrarvara sem tengist sjávarútvegi og öðrum greinum atvinnulífsins.
Veiðarfæraþjónusta fyrir norðlensku togarana
Þekktast er Ísfell fyrir þjónustu sína á veiðarfærasviðinu og segir Þorvaldur að nýi vinnusalurinn við Hjalteyrargötu auðveldi vinnu við veiðarfærin. „Okkar áhersla í veiðarfæraþjónstunni snýr mest að botnfiskveiðarfærum og togskipum hér á Akureyri og í nágrannabyggðum. Hér setjum við upp veiðarfæri, lagfærum veiðarfæri og setjum upp varastykki, splæsum víra og leysum önnur verkefni fyrir skipin. Síðan vinnum við með starfsstöðvum Ísfells á Ólafsfirði og Sauðárkróki eftir því sem við á. Þannig erum við öflug heild í þjónustu við viðskiptavini og sjáum bara tækifæri til að efla okkur enn frekar,“ segir Þorvaldur.