Hlaðvarpið Loðnufréttir í umsjá Inga Þórs Georgssonar, ritstjóra Loðnufrétta.is fór í loftið í vikunni. Fyrstu tveir þættirnir eru þegar aðgengilegir en segja má að allt loðnuáhugafólk bíði með öndina í hálsinum eftir deginum og dag og niðurstöðum nýjasta mælingaleiðangurs Hafrannsóknastofnunar sem kynntar verða í dag.
„Í ljósi þess að vertíðin í ár verður mun skemmri en í fyrra sökum úthlutunar var ákveðið að bregða á það ráð að „hita aðeins upp“ í staðinn og búa til 5-6 þætti fyrir þau allra hörðustu en hugmyndin er að sjálfsögðu líka að reyna að fá fleiri til að fylgjast með,“ segir Ingvi Þór.
Í fyrsta þætti er tekin létt yfirferð á vertíðinni og síðan viðtal við Geir Zoega skipstjóra á Polar Amaroq en hann hefur getið af sér gott orð sem skipstjóri hér heima og í Grænlandi. Í þætti tvö var farið yfir verðmætasköpun síðustu vertíðar, aflatölur og spáð í spilin fyrir komandi vertíð ásamt Arnari Þór Ólafssyni. Næstu þættir sem líta dagsins ljós eru samtöl við fólk sem stýrir hátæknivinnslum, markaðsmálum og tengdum iðnuðum til að kynnast því frá öllum hliðum hvernig loðnan hefur áhrif á efnahaginn, þjóðarsálina og sjávarútveg. Ísfell er helsti bakhjarl Loðnufrétta í ár og mun starfsmaður þeirra einnig koma og fræða hlustendur um veiðarfærin og af hverju helstu spekingar velta vöngum yfir hvort betra væri að vera á loðnuflotvörpu eða nót við veiðarnar.
Fyrstu tveir þættirnir eru komnir í loftið og geta því loðnuáhugamenn sem bíða í örvæntingu eftir að fara að sjá og heyra sögur af vertíðinni svalað þorsta sínum með því að hlusta á hlaðvarp Loðnufrétta.
Undanfarna 12 mánuði hefur Ingvi Þór hefur ásamt Arnari Þór Ólafssyni haldið úti hlaðvarpinu Pyngjan sem fjallar um ársreikninga fyrirtækja og viðskipti almennt og þótti þeim félögum liggja beinast við að reyna að fjalla á sama máta um loðnuna og sjávarútveg.
Hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.d. á Spotify.